Logo Contact us

Hallur Ingólfsson

Hallur Ingólfsson gaf út sólóplötuna "Öræfi" í september síðastliðnum. Hallur hefur víða komið við og var m.a. í XIII og Ham, og leiðir nú rokksveitina Skepnu. Öræfi inniheldur 9 ósungin lög sem eru í senn dramatísk og hlaðin grimmri fegurð. Sum laganna eiga upptök sín að rekja til þeirrar tónlistar sem Hallur hefur samið fyrir leikhús og kvikmyndir undanfarin ár.  Á tónleikunum leikur Hallur á gítar og kemur fram með einvala hljóðfæraleikurum: Þeim Halldóri Lárussyni trommuleikara, Herði Inga Stefánssyni bassaleikara og Jóhanni Ingvasyni píanóleikara.

Afar erfitt er að skilgreina tónlistina á Öræfi. Ekki vegna þess að hún sé svo flókin eða skrítin, heldur er Öræfi þvert á móti stílhreint, kraftmikið og aðlaðandi verk með mjög víða skískotun. Nefnd hafa verið nöfn eins og Mogwai, Angelo Badalamenti, Tortoise, Ennio Morricone, Pink Floyd o.fl. Flutt af lítilli hljómsveit með mjög stórann hljóm.

Öræfi er fyrst og fremst óður til tónlistar; tónlistarinnar vegna. Tónlist án orða gefur okkur frelsi til að ferðast um okkar innri óbyggðir án þess að orð stjórni ferðinni. Þá vill ferðin oft bera mann á ókunna og óspillta staði. Okkar innri Öræfi.

Öræfi nýtur sín einstaklega vel á tónleikum þar sem vítt svið tónlistarinnar og stór hljómur fær notið sín til fullnustu.

Öræfi komst í úrtak af útgáfum ársins sem tilnefndar voru til Norrænu tónlistarverðlaunanna og sást víða á árslistum ýmissa tónlistarspekúlanta yfir bestu plötur ársins. Þ.á.m. Ólafs Páls Gunnarssonar sem var með ýtarlega umfjöllun um Öræfi í Rokklandsþætti sínum á Rás 2, 15. desember síðastliðinn.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar um Öræfi: "Öræfi Halls Ingólfssonar er óvenju glæsilegt verk þar sem allir þeir ólíku þættir sem byggt hafa undir listsköpun hans í gegnum tíðina mætast í einum og mjög svo áhrifaríkum skurðpunkti. Stemningin er bæði áleitin og ógnandi en öruggt flæðið bæði fallegt og höfugt. Öræfi er á vissan hátt leikur að andstæðum; rokkarinn er þarna en sömuleiðis tónskáldið sem leggur epísk - en aldrei yfirkeyrð - lóð á vogarskálarnar. Sannkallað þrekvirki."

Tónskrattinn (Björn Jónsson) skrifar um Öræfi: "Mér finnst þetta ákaflega heillandi plata, full af dramatík og ljúfsárri fegurð, full af lífinu sjálfu og stórbrotinni íslenskri náttúru. Á tímum athyglisbrests og hraða sem allt er að brenna upp, gæti Öræfi klárlega verið það mótvægi sem við þurfum á að halda, andrími í dagsins önn. Hér eru sterkar tilfinningar í gangi og þessi tónlist snertir við manni og krefur mann um afstöðu…Þeir flokkunargjörnu eiga ef til vill í vandræðum með að finna þessari plötu stað í flokkunakerfum sínum og það finnst mér eitt af því sem er heillandi við hana. Hún stendur alveg án allra merkimiða.

Hvar og Hvenær?

Salur:

Berg

Dagsetning:

Klukkan hvað?:

Miðaverð:

Kr. 1500