Logo Contact us

Klassart

Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá útgáfu plötunnar Bottle of Blues með Klassart ætlar sveitin að blása til afmælistónleika í Berginu, Hljómahöll fimmtudaginn 30. nóvember. Á tónleikunum verður platan leikin í heild sinni auk þess sem farið verður yfir áhrifavalda og sagt frá uppruna laganna og textanna.

Rætur plötunnar má rekja til ársins 2006 en þá tóku systkinin Fríða og Smári þátt í blúslagakeppni Rásar 2 með laginu Bottle of Blues. Lagið bar sigur úr býtum og í kjölfarið hófu þau upptökur á plötu undir nafninu Klassart. Þau leituðu til upptökustjórans Guðmundar Kristins Jónssonar, Kidda í Hjálmum, sem þá stýrði upptökum í hljóðveri Rúnars Júlíussonar, Geimsteini.

Platan kom út haustið 2007 og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Trausti Júlíusson gaf plötunni fjórar stjörnu af fimm mögulegum í Fréttablaðinu og í gagnrýni sinni segir hann plötuna vera á sinn hátt eiginlega fullkomna. Hún hafi að geyma „flottar útsetningar, óaðfinnanleg[an] hljóðfæraleik [...]“ og að Fríða hafi „fallega rödd sem hún beitir á seiðandi, en afslappaðan hátt“ (13. ágúst 2007, s. 30). Ragnheiður Eiríksdóttir hjá Morgunblaðinu sagði Klassart stimpla sig inn í meistaraflokk og gaf Bottle of Blues fullt hús stiga (28. ágúst 2007, s. 37).

Lögin á plötunni er öll eftir Smára nema Örlagablús sem er eftir Tom Waits og Mrs. Jones sem Fríða samdi. Fríða syngur öll lögin ásamt því að eiga textann við Painkillers and Beer, Mrs. Jones og White Cold Night sem hún samdi ásamt Smára. Smári samdi aðra texta nema við Örlagablús sem Baggalúturinn Bragi Valdimar Skúlason setti saman. Lagið er jafnfram það eina á plötunni sem sungið er á íslensku. Örlagablús náði hátt í vinsældarlistum og sat í efsta sæti á lista Rásar 2 í fjölmargar vikur. Og í lok árs kom í ljós að af íslenskum lögum var lagið næstmest spilað á stöðinni það árið.

Á tónleikunum í Hljómahöll verður hljómsveitin með sama sniði og á útgáfutónleikum plötunnar á Ránni þann 16. ágúst 2007 auk hljómborðsleikara: Smári Guðmundsson - gítar Fríða Dís Guðmundsdóttir - söngur Pálmar Guðmundsson - bassi Ólafur Þór Ólafsson - rafmagnsgítar Hlynur Þór Valsson - gítar/raddir Ólafur Ingólfsson - trommur Stefán Örn Gunnlaugsson - hljómborð/raddir Platan seldist upp en í tilefni af afmælinu ætlar Geimsteinn að endurprenta plötuna á vínyl og verður hún fáanleg á tónleikunum.

Aðeins 100 sæti í boði.

Miðaverð kr. 3.500.

Hvar og Hvenær?

Salur:

Berg

Dagsetning:

Klukkan hvað?:

-

Miðaverð:

Kr. 3500